Ég skrapp í sveitina (í sumarbústað foreldra minna) í heila viku með guttalingana mína, gaman að sjá þá svona frjálsa úti að leika sér.. engin umferð, bara náttúran og svo nauðsynleg tæki eins og “sláttuvél” og “orf”. Ég set þessi orð í gæsalappir vegna þess að það sem strákarnir nota sem sláttuvél og orf er bara trjágrein (orfið) og svona blá kerra sem fæst í Ikea (sem börnin ýta á undan sér) er notuð sem sláttuvél.. og svo þarf auðvitað að humma svolítið hátt svo það sé almennilegt sláttuvélahljóð;)
Ég hef ekki verið dugleg að hreyfa mig nema bara til að eltast við strákana enda nóg að gera í því. En nú er ég komin heim og get þá farið að skella mér í göngutúra með þá.
Ég er allan daginn að hugsa um eitthvað til að skrifa á blogginu mínu (skrifa hin fínustu blogg í huganum mörgum sinnum yfir daginn) en svo þegar ég sest við tölvuna þá er það allt farið.
Mér finnst ég vera að detta í þunglyndi þessa dagana, erfitt að vera ein með börnin allan sólarhringinn og fá aldrei frí, pabbahelgar væru stundum vel þegnar til að safna upp orku en það er víst ekki í boði. Svo er maður ekkert voða vel stæður fjárhagslega (ég vildi að annar starfsvettvangur ætti betur við mig en kennsla) en ég er að vinna í því með því að drífa mig aftur í skólann til að klára námið.
Pabbi strákanna er að gera mig brjálaða, hann keypti bíl þegar við vorum gift og ég varð sjálfkrafa sett í sjálfskuldarábyrgð.. nema það eru tvö ár síðan við skildum og ég hef beðið hann í hverjum einasta mánuði síðan við skildum að breyta þessu, sérstaklega af því að hann gifti sig strax aftur. Auðvitað ætti hún þá að vera ábyrgðarmaður en ekki ég.. hann hefur aldrei viljað breyta þessu. Og nú þegar ég kom heim úr bústaðnum fékk ég skeyti um það að hann hafi ekki verið að borga reikningana lengi og þeir ætli að taka bílinn af honum og ná peningnum af mér í gegnum lögfræðing. Ég hata þennan mann!
Ekki nóg með að hann vilji ekkert með syni sína hafa (ég var ólétt að yngri stráknum þegar við skildum og hann hafði ekki fyrir því að segja beyglunni að hann ætti von á öðru barni með mér). Hún vill ekki leyfa honum að heimsækja syni sína þannig að hann sleppir því þá bara.. ég má ekki láta foreldra hans vita af yngri stráknum.. hann laug að öllum að ég hefði haldið framhjá honum og hann væri sko ekki pabbi stráksins.. je ræt.. það var einmitt ég sem var að halda framhjá eða þannig. Svo sjá allir að drengurinn er greinilega sonur hans..
Þau eru með 300þús. kr. meira í laun en ég á mánuði og svo er ætlast til þess að ég borgi bílinn þeirra.. by the way þá keypti hann annan bíl í vor þannig að þau eiga núna tvo bíla!
Ég hef þurft að borga allan lækna- og lyfjakostnað fyrir drengina.. röraaðgerðir og hálskirtlatöku, tíma hjá sérfræðingum vegna ofnæmis og exems.. honum er alveg sama.. en hringir svo í mig og kvartar yfir að eiga ekki pening.
Ok, hann borgar meðlag sem er 2×20þús (var 2×18), daggæslan fyrir strákana var 60 þús.. svo er það náttúrulega föt, matur, bleyjur, þurrmjólk.. læknakostnaður .. Þeir fengu hvorki jóla- né afmælisgjafir frá pabba sínum og hafa séð hann alls 3x sinnum síðustu 13 mánuðina (samanlagt í innan við klukkutíma)..
Og hann ætlast til að ég fari að borga skuldirnar þeirra!
Ég kemst ekkert án drengjanna nema vera tilbúin að borga barnapíu múltímonní fyrir að vera með þá á meðan, og ég hef ekki efni á því þannig að jahh.. ég er bara heima ein á kvöldin..
Ég er að fara yfirum hérna og hvað gerir maður til að hugga sig.. borðar drasl og horfir á Grey’s Anatomy..
ég meika ekki að gera eðlilegustu hluti sem ég hef ekki átt erfitt með áður (nema í nokkra mánuði eftir að eldri strákurinn fæddist en það var vegna fæðingarþunglyndis og kvíða.. og svefnleysis þar sem drengurinn svaf aldrei meira en hálftíma í einu fyrstu mánuðina).
Ég ímynda mér hræðileg slys þegar ég er að keyra í umferðinni.. mér finnst ég vera orðin alveg eins og ég var með fæðingarþunglyndið. Ég átti erfitt með að labba yfir götu með vagninn því ég sá alltaf fyrir mér að það kæmi bíll á mikilli ferð og keyrði á okkur, gat ekki labbað nálægt Tjörninni því ég sá fyrir mér að eitthvað myndi koma fyrir og barnið dytti í Tjörnina..
Ég fékk kvíðaköst þannig að ég náði ekki andanum, varð ógeðslega heitt og fannst ég vera að kafna, ég byrjaði reyndar að fá svoleiðis áður en ég átti eldri drenginn en þá var ég rúmliggjandi frá 29 viku og lá inni á meðgöngudeild síðustu 3 vikurnar vegna meðgöngueitrunar en endaði í bráðakeisara á 38. viku.
Ég nefndi þessi köst hjá mér við ljósuna mína og ljósurnar á meðgöngudeildinni en enginn skildi hvað ég var að tala um (vissi ekki þá að þetta væru kvíðaköst).
Á þessum tíma þá dugði hjá mér að drífa mig út í göngutúr þegar ég fann að ég var að fá svona þunglyndisköst, ég passaði mig að komast eitthvað út á hverjum einasta degi.
Nú sé ég að þetta er eitthvað sem ég verð að fara að gera aftur..
Ég á örugglega eftir að pirrast á barnsföðurnum meira hérna í framtíðinni, ég kemst ekki yfir allt það sem hann gerði á minn hlut og hlut strákanna.. og ég sé ekki fram á að ég geti treyst neinum karlmanni í framtíðinni.. Það eru 2 ár síðan við skildum og ég er enn brjáluð út af því hvernig hann hefur komið fram (og heldur áfram að koma fram) við mig og mína.
Ég hef eitt hrós fyrir sjálfa mig í dag.. ég drakk 5 glös af vatni.. og það er 5 glösum meira en ég er vön að drekka.
Nú verð ég að koma mér í svefn því ég verð líklegast vakin milli kl. 5 og 7 af litla guttanum sem er algjör morgunhani (akkúrat öfugt við mömmuna).